Matty Cash, leikmaður Aston Villa og Póllands, hefur svarað pólsku goðsögninni Tomasz Hajto.
Hajto gagnrýndi Cash harkalega á dögunum eftir að bakvörðurinn ákvað að snúa snemma heim til Englands í landsliðsverkefni Póllands.
Ástæðan er sú að Cash meiddist í leik gegn Tékklandi og fór af velli eftir aðeins níu mínútur.
,,Ég myndi vera áfram þar til á mánudag. Ég myndi reyna að jafna mig, sama hvað og sýna stjóranum að mér væri ekki sama,“ sagði Hajto um Cash.
,,Ég myndi biðja stjórann afsökunar og segjast vera tilbúinn fyrir leikinn gegn Albaníu. Svo komumst við að því að hann er tilbúinn að pakka í töskur og fara heim.“
Cash tók ekki vel í þessi ummæli Hajto og svaraði honum á samskiptamiðlinum Twitter.
,,Þú ert fullur af skít,“ skrifaði Cash og var klárlega ekki ánægður með ummæli Hajto. Cash er einn mikilvægasti leikmaður Villa sem á mikilvæga leiki framundan í ensku úrvalsdeildinni.“