Hið minnsta þrír leikmenn íslenska landsliðsins hafa þakkað Arnari Viðarssyni fyrir starf sitt sem landsliðsþjálfari.
Um er að ræða Ísak Bergmann Jóhannesson, Daníel Leó Grétarsson og Andra Lucas Guðjohnsen. Allir hafa birt mynd á Instagram af Arnari og þakkað fyrir.
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður og stjórn hennar ákvað í gær að reka Arnar Þór úr starfi þjálfara.
„Takk fyrir EM U21 og takk fyrir að gefa mér mína fyrstu A-landsleiki. Þú hjálpaðir mér svo óendanlega mikið á fyrstu skrefunum mínum. Þú hefur gefið mér ómetanlega reynslu og ég verð ævinlega þakklátur,“ skrifar Ísak Bergmann og kveður Arnar.
Arnar hafði í rúm tvö ár starfað sem landsliðsþjálfari en almenningur var ekki á hans bandi undir það síðasta.