Paul Merson, fyrrum leikmaður Arsenal, segir að Bukayo Saka muni upplifa ákveðin vandamál þegar líður á feril sinn vegna þeirrar stöðu sem hann spilar.
Saka er aðeins 21 árs gamall en hefur verið hvað besti leikmaður Arsenal í nokkur ár.
Kappinn hefur komið að 22 mörkum Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni, en liðið er með átta stiga forskot á toppnum.
„Vandamálið sem hann mun upplifa er vegna þeirrar stöðu sem hann spilar. Því þekktari sem hann verður, þeim mun meira munu liðin einblína á hann,“ segir Merson.
„Lið munu passa að boltinn berist ekki til hans og tvöfalda á hann.
Hann mun á einhverjum tímapunkti þurfa að breyta sínum stíl til að eiga við það. Hann er samt týpa til að geta það.“
Merson er uppalinn hjá Arsenal og lék fyrir aðalliðið í tólf ár, frá 1985-1997.