Bukayo Saka, sóknarmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Arsenal er nálægt því að skrifa undir nýjan langtímasamning við félagið sem mun tryggja honum í kringum 15 milljónir punda á ársgrundvelli. Það er Daily Mail sem greinir frá.
Saka er stjörnuleikmaður Arsenal og þá hefur hann verið að hasla sér völl með enska landsliðinu undanfarið. Þessi 21 árs gamli leikmaður verður, samkvæmt heimildum Daily Mail, launahæsti leikmaður Arsenal þegar að hann skrifar undir nýja samninginn.
Talið er að vikulaun hans muni nema í kringum 300 þúsund pundum, því sem jafngildir um 51 milljón íslenskra króna. Hann verður því einn af launahæstu leikmönnum í sögu Arsenal.
Önnur félög, þar með talið Manchester City, voru sögð með augastað á Saka sem hefur hins vegar ákveðið að halda tryggð við Arsenal en þar hefur hann klifið upp metorðastigann allt frá því að vera meðlimur í Hale End akademíu félagsins.
Gengi Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á yfirstandandi tímabili hefur verið framar vonum. Liðið situr í 1. sæti deildarinnar með átta stiga forskot á Manchester City sem á hins vegar leik til góða.