Mason Greenwood, leikmaður Manchester United hefur verið í kastljósi fjölmiðla lengi vel núna eftir að ásakanir á hendur honum um kynferðisbrot, tilraun til nauðgunar og stjórnandi hegðun, litu dagsins ljós. Nú hefur málið verið látið niður falla og er nú beðið eftir ákvörðun Manchester United varðandi framtíð leikmannsins í herbúðum liðsins.
Ítarleg grein um Mason Greenwood og sögu hans hjá Manchester United birtist í dag hjá The Athletic og er þar ýmislegt dregið fram í dagsljósið.
Í greininni er sjálfstraust Greenwood á unga aldri meðal annars sagt hafa komið fram í talsmáta hans og hugarfari. Hann hafi litið niður til einstaklinga í sömu stöðu og hann, litið stórt á sig.
Einstaklingur sem þekkti vel til Greenwood á þessum tíma sagði hann hafa verið vel meðvitaðan um sína hæfileika og færni en að á sama skapi hikaði hann ekki við að láta aðra leikmenn heyra það, hann héldi ekkert aftur af sér í þeim efnum.
„Hann er dauður,“ sagði Greenwood um Cristiano Ronaldo, goðsögn í sögu Manchester United á sínum tíma en hann var þá leikmaður Real Madrid og átti þá við að ferill þessa goðsagnakennda leikmanns væri kominn á leiðarenda. Einstaklingar úr starfsliði Manchester United hafi í kjölfarið leiðrétt hann og taldi þetta hugarfar hans vera merki um óþroskaðan einstakling.
Þetta hugarfar hans og talsmátinn sem því fylgdi átti eftir að draga dilk á eftir sér þar sem hann sótti sér menntun samhliða knattspyrnuferlinum. Sumir kennarar og annað starfsfólk sem umgekkst Greenwood á hans skólagöngu í Ashton on Mersey, minnast hans ekki með hlýju.
Þá eru dæmi um að Greenwood hafi, í samskiptum við einstaklinga úr starfsliði Manchester United, hótað því að skipta yfir til nágrannanna í Manchester City.
Heimildarmenn The Athletic segja almennar áhyggjur hafa ríkt hjá félaginu varðandi það að Greenwood gæti skipt um félag. Það kom svo að þeim tímapunkti að Manchester City reyndi að fá Greenwood yfir í akademíu sína en hann hafnaði því tækifæri.