Andreas Brehme, fyrrum atvinnu og landsliðsmaður í knattspyrnu kom sér heldur betur í klandur þegar að hann var að taka upp persónulega afmæliskveðju á dögunum. Kveðjan, sem hefur farið eins og eldur um sinu um heimsbyggðina, varð helst til of persónuleg þegar að eiginkona Brehme labbaði á nærbuxunum einum klæða inn í myndina.
Þessi 62 ára gamli fyrrum heimsmeistari með landsliði Þýskalands gefur kost á því að senda persónulegar myndbandskveðjur til aðdáenda sinna í gegnum síðuna Memmo.me. Slík þjónusta hefur verið að ryðja sér rúms meðal almennings undanfarin ár.
Einn daginn var Brehme að taka upp eina slíka kveðju, á heimili fjölskyldunnar við Garda vatn á Ítalíu, þegar að konan hans gengur fáklædd inn í myndarammann. Fát kom á Brehme í kjölfarið og í óðagotinu slæmdi hann fingrinum á senda takkann og kveðjan því farin til þess sem hún var pöntuð fyrir.
Þýski vefmiðillinn Bild leitaði viðbragða hjá Brehme og eiginkonu hans við því að kveðjan skyldi fara svona frá þeim en þau sáu spaugilegu hliðina á þessu öllu saman.
„Hvað er að þessu?“ svaraði eiginkona Brehme, blaðamanni Bild. „Þið gætuð séð mig nakta vera að skipta um föt á ströndinni eða nakta í sauna. Við hlægjum bara að þessu og ég stríði Andreas vegna þessa, kalla hann minn helsta samfélagsmiðlasérfræðing.“
Andreas tekur í svipaðan streng og eiginkona sín.
„Nú veit allur heimurinn hversu flotta eiginkonu ég á. Þetta átti náttúrulega aldrei að fara svona en núna hlægjum við að þessu. Í framtíðinni væri kannski best ef hún sæi um myndatökuna þegar að ég tek upp kveðjur.“