Hiba Abouk, eiginkona Marokkóska knattspyrnumannsins Achraf Hakimi, hefur tjáð sig eftir að ásakanir á hendur honum um nauðgun litu dagsins ljós. Abouk stendur með þolandanum í þessu máli og vonar að réttarkerfið muni standa sig í þessu máli.
Hiba Abouk, eiginkona Hakimi tjáði sig um málið á samfélagsmiðlum í dag en þau eru að skilja og sagðist Abouk ekki búa með leikmanninum lengur. Sú staða hafi komið upp áður en ásakanir á hendur Hakimi litu dagsins ljós.
Á Instagram í dag sagði Abouk að ásakanirnar á hendur Hakimi hafi valdið henni skömm og sagðist hún þurfa tíma til þess að meðtaka sjokkið sem þessu fylgir.
„Það segir sig sjálft að ég hef alltaf verið og mun alltaf standa með þolendum. Þess vegna og miðað við alvarleika ásakananna, verðum við að treysta á að réttlætið muni að lokum sigra.“
Þrátt fyrir að ásakanirnar hafi litið dagsins ljós heldur Hakimi áfram að spila fyrir félags- og landslið sitt. Lögmaður hans tjáði sig við franska miðilinn Le Parisien í síðasta mánuði og segir hann þvertaka fyrir ásakanirnar.
„Hann er rólegur og sýnir samstarfsvilja.“