Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar fyrr í dag var til umræðu væntanlegt útboð á vinnu við knattspyrnuvöll í sveitarfélaginu sem knattspyrnudeild Vestra nýtir sér. Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn sveitarfélagsins að lagt verði nýtt gervigras á bæði aðal- sem og æfingavöllinn sem Vestri nýtir sér.
Umræður um væntanlegt útboð á vinnu við að leggja gervigras á aðalvöll Vestra í Ísafjarðarbæ verið reglulega á dagskrá bæjarráðs Ísafjarðarbæjar undanfarna mánuði. Umræður hafa farið fram um vökvunarkerfi við völlinn, snjómokstur sem og tegund þess gervigrass sem verður á endanum fyrir valinu.
Fundarmenn hafa verið sammála um að best sé að koma fyrir föstu vökvunarkerfi á hliðarlínum knattspyrnuvallarins og nýjustu vendingar eru þær að bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur áherslu á að sett verði nýtt gervigras á aðalvöllinn sem og æfingavöllinn við hlið hans.
Náttúrulegt gras er, og hefur alltaf verið, á aðalvellinum sem um ræðir en nú stendur til að leggja á hann gervigras svo hann nýtist betur, til að mynda yfir vetrarmánuðina. Á æfingavellinum er gervigras og er nú svo komið að það er úr sér gengið og skipta þarf um.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að samþykkja eftirfarandi sviðsmynd, byggt á kostnaðarmati úr minnisblaði sviðsstjóra og að bæjarstjóra verði falið að bjóða verkið út:
Bæjarráð felur bæjarstjóra að undirbúa útboðsgögn miðað við ofangreint, þar sem heimilt verður að hafa vökvunarkerfi í frávikstilboði, finnist lausn á fjármögnun þess.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við Knattspyrnudeild Vestra vegna málsins.