Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Liechtenstein
Það er búist við um tuttugu íslenskum áhorfendum á leik íslenska karlalandsliðsins gegn Liechtenstein hér ytra í dag.
Um annan leik liðanna í undankeppni Evrópumótsins 2024 er að ræða. Bæði fengu þau skell í fyrsta leik. Eins og við öll vitum tapaði íslenska liðið 3-0 gegn Bosníu-Hersegóvínu. Liechtenstein tapaði 4-0 gegn Cristiano Ronaldo og félögum í Portúgal.
Strákarnir okkar þurfa að svara fyrir tapið á fimmtudag með góðri frammistöðu í dag. Allt annað en sannfærandi sigur yrðu vonbrigði.
Þeir munu fá einhvern stuðning úr stúkunni því búist er við um 20 Íslendingum þar.
Arnar Þór Viðarsson sagði á fréttamannafundi í gær að allir leikmenn liðsins væru klárir í slaginn nema Þórir Jóhann Helgason. Hann væri að glíma við veikindi og það þyrfti að taka stöðuna á honum fyrir leik.
Leikur Liechtenstein og Íslands hefst klukkan 16 í dag að íslenskum tíma.