Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Liechtenstein
Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði segir að viðbrögð íslenska landsliðsins við tapinu slæma gegn Bosníu-Hersegóvínu sé nú það sem öllu máli skiptir.
Ísland mætir Liechtenstein í dag í öðrum leik sínum í undankeppni EM 2024 en á fimmtudag tapaði liðið 3-0 í Bosníu.
„Við þurfum að sýna stöðugleika. Þetta er allt spurning um það. Líka í gegnum riðilinn allan,“ sagði Aron Einar á fréttamannafundi hér í Liechtenstein í gær.
Hann mun snúa aftur í lið Íslands í dag eftir að hafa tekið út leikbann í Bosníu.
„Við þurfum að spila okkar leik. Við getum ekki hugsað um neitt annað. Þetta snýst allt um hvernig við bregðumst við þessu tapi á móti Bosníu.
Við ætlum okkur þrjú stig og það er planið.“
Leikur Liechtenstein og Íslands hefst klukkan 16 í dag að íslenskum tíma. Hann verður í beinni útsendingu á Viaplay.