Ritgerð sem blaðamaðurinn, Jóhann Ingi Hafþórsson, hefur skilað af sér og er nú aðgengileg á Skemmunni varpar ljósi á þá krísu sem skapaðist hjá KSÍ þegar leikmenn í liðinu voru sakaðir um kynferðisbrot. Í ritgerð Jóhanns er rætt við starfsmenn KSÍ sem voru á staðnum þegar allt fór í bál og brand.
Rætt var um ritgerðina í Íþróttavikunni með Benna Bó sem er á dagskrá Hringbrautar öll föstudagskvöld. Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans hér á fróni, kom og fékk sér sæti ásamt Herði Snævari Jónssyni, íþróttafréttastjóra Torgs.
Meðal annars sem kemur fram í ritgerðinni að KSÍ væri markvisst að vinna í því að hafa færri fréttir um sambandið í fjölmiðlum.
„Formaðurinn hefur alveg sýnt að hún er ekki mjög viljug til viðtals. Hún er ekki að gefa mörg færi á sér að koma í viðtöl. Ég fann að þegar hún byrjaði var hún gjörn að koma í viðtöl en hún hefur dregið úr því. Það er svona þar sem ég finn að þau eru að reyna að draga úr umfjöllunum,“ sagði Hörður.