„Þrír leikmenn að skora sín fyrstu mörk, gott svar. Aron Einar minnir á mikilvægi sitt í liðinu,“ sagði Kári Árnason sérfræðingur Viaplay eftir 0-7 sigur Íslands á Liechtenstein í undankeppni Evrópumótsins í dag.
Um er að ræða stærsta sigur Íslands í sögunni í keppnisleik og næst stærsti sigur sögunnar yfir heildina.
Aron Einar Gunnarsson skoraði þrennu í leiknum, óvænt þrenna en þriðja markið kom af vítapunktinum. „Bara frábært víti, auðvitað fær hann að taka þetta. Þetta er frábært víti, það er enginn að fara að verja þetta,“ sagði Kári.
Leikmenn Íslands fögnuðu með að klappa á skalla Arons. „Ég hef ekki séð þetta áður, ég skil það ekki,“ sagði Kári.
Kári segir eðlilegt að Arnar Þór Viðarsson hafi tekið Jóhann Berg. „Í stöðunni 1-0 er leikurinn búinn og í 2-0, eins og staðan var í hálfleik og þá á Jói að koma út bara.“
„Þetta er flott fyrir markatöluna og vonandi stelur Slóvakía stigum af Bosníu og opnar þennan riðil,“ sagði Kári.
En hverjir voru menn leiksins að mati Kára? „Hákon var frábær, Aron líka. Það er ekki á hverjum degi sem hafsent skorar þrennu, Jón Dagur að sjálfsögðu.“