Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Liechtenstein
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari segir að önnur úrslit riðils Íslands í undankeppni EM 2024 á fimmtudag hafi sýnt honum að riðillinn verði opinn og að möguleikinn á að ná árangri úr honum sé hvergi nærri á bak og burt þrátt fyrir slæma byrjun.
Eins og allir vita tapaði íslenska liðið 3-0 fyrir Bosníu-Hersegóvínu á fimmtudag. Á sama tíma fóru aðrir leikir riðilsins þannig að Portúgal vann Liechtenstein 4-0 en Slóvakía gerði óvænt markalaust jafntefli við Lúxemborg á heimavelli.
„Þetta segir okkur það sem ég er búinn að tala um síðan í október. Þetta er rosalega opinn riðill,“ sagði Arnar á blaðamannafundi í Liechtenstein í gær, en þar mætir íslenska liðið heimamönnum í dag í öðrum leik sínum í undanriðlinum.
„Það hefur enginn talað um Lúxemborg en þetta sýnir að þeir eru orðnir vel skipulagðir, komnir með gott lið og leikmenn á fínum stöðum í Evrópu. Það er strax þarna sem Slóvakía lætur stig liggja heima.“
Arnar nefndi svo hvað hann telji Strákana okkar þurfa að gera til að ná öðru sæti undanriðilsins og fara aftur á EM.
„Við þurfum að vinna fjóra heimaleiki og líklega 2-3 útileiki. Þess vegna fórum við inn í leikinn á móti Bosníu með þá hugsun að það hefði verið frábært að ná sigri, mjög gott að ná jafntefli en að mótið væri ekki búið þrátt fyrir tap. Ef við náum þessum stigum verðum við nálægt þessu en til þess þurfum við að bæta leik okkar á ákveðnum sviðum.
Úrslit Slóvakíu og Lúxemborgar sýna okkur að liðin eigi eftir að taka stig af hvoru öðru. Þetta verður rosalega opið. Þetta er maraþon,“ sagði Arnar á fundinum í gær.
Leikur Liechtenstein og Íslands hefst klukkan 16 í dag að íslenskum tíma.
Meira:
Svona er líklegt að Arnar Þór stilli upp í dag – Fyrirliðinn mætir á svæðið