„Ég held að það sé hægt að segja það, við vorum staðráðnir í að svara fyrir fimmtudaginn. Vorum á fullu í byrjun, leikplanið virkaði vel. Við vissum að þeir myndu gefa svæði á köntunum, ég er virkilega ánægður með hvernig við stigum upp,“ sagði Aron Einar Gunnarsson fyrirliði Íslands eftir 0-7 sigur á Liechtenstein í kvöld.
Aron skoraði þrennu í leiknum. Íslenska liðið svaraði fyrir sig eftir slæmt tap gegn Bosníu á fimmtudag en um er að ræða leiki í undankeppni Evrópumótsins.
„Þetta er langt ferli, það þýðir ekki að hengja haus. Það er bara einbeiting á næsta leik, það var enginn á hælunum í dag. Ánægður með frammistöðuna, mörkin sem við skorum og halda núllinu.“
Elsti sonur Arons Einars fagnaði átta ára afmæli sínu í dag en hann fæddist þegar Aron Einar var í verkefni með landsliðinu í Kasakstan árið 2015.
„Ég er ánægður að geta hjálpað liðinu hvort sem það sé að skora mörk eða halda hreinu, ég geri allt það sem ég get fyrir Ísland.. Skemmtileg afmælisgjöf fyrir 8 ára Oliver, hann fæddist þegar ég var í Kasakstan,“ sagði Aron Einar og brosti og sagi að Oliver fengi að eiga boltann.
Aron segir að þessi sigur gefi liðinu sjálfstraust. „Við þurftum á sjálfstrausti að halda. Við erum ánægðir með þetta verkefni þó það hafi byrjað illa.“
Aron Einar skoraði þriðja markið af vítapunktinum, hann tekur ekki margar slíkar spyrnur. „Andri Lucas var að gera sig líklegan en hann áttaði sig á því að ég væri á þrennunni.“