Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Liechtenstein
Á morgun mun íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu etja kappi við Liechtenstein. Liðið þarf heldur betur að sýna íslensku þjóðinni sitt rétta andlit eftir hörmungarframmistöðu og stórt tap í Bosníu-Hersegóvínu á fimmtudag.
Íslenska liðið ferðaðist frá Bosníu til Þýskalands í gær en fór svo yfir til Austurríkis, þar sem það mun dvelja fyrir leikinn gegn Liechtenstein, en það verður annar leikurinn í undankeppni Evrópumótsins 2024. Liðið mun æfa á keppnisvellinum í Vaduz í dag. Verður æfingin sú síðasta fyrir leikinn á morgun.
Það er ekkert leyndarmál að leikur morgundagsins er algjör skyldusigur fyrir Ísland. Stuðull á sigur Íslands á Lengjunni er til að mynda 1,08. Stuðull á sigur Liechtenstein er 14,39.
Leikurinn hefst klukkan 16 á morgun að íslenskum tíma.