Cristiano Ronaldo, leikmaður Al-Nassr, er á því máli að deildin í Sádí-Arabíu geti orðið ein sú besta í heimi á næstu árum.
Ronaldo gekk í raðir Al-Nassr fyrr í vetur og hefur byrjað mjög vel með sínu nýja félagi og er duglegur að skora.
Það eru ekki margir sem fylgjast með deildinni þar í landi en styrkleikinn kom Ronaldo verulega á óvart.
,,Mér líður mjög vel, þess vegna er ég hérna. Ef mér liði ekki vel þá væri ég ekki hér,“ sagði Ronaldo.
,,Þessi deild er mjög keppnishæf, fólk ætti að horfa á hana með öðrum augum. Augljóslega er þetta ekki enska úrvalsdeildin, ég væri að ljúga af ég myndi segja það.“
,,Ég er mjög hissa á hversu sterk deildin er, liðin eru mjög jöfn og arabísku leikmennirnir eru góðir. Mögulega eftir fimm eða sex ár ef þeir halda áfram á sömu braut verður þetta fjórða eða fimmta besta deild heims.“