Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Zenica
Runninn er upp leikdagur í Zenica, þar sem íslenska karlalandsliðið mætir heimamönnum í Bosníu-Hersegóvínu í kvöld. Óhætt er að segja að stemning sé farin að myndast á meðal heimamanna í borginni.
Um fyrsta leik liðanna í undankeppni EM 2024 er að ræða. Auk Íslands og Bosníu eru Portúgal, Slóvakía, Lúxemborg og Liecthenstein í riðlinum.
Bæði lið gera sér því vonir um að vera á meðal tveggja efstu í undanriðlinum og komast þannig á EM í Þýskalandi.
Það er rífandi stemning hjá heimamönnum í borginni Zenica. Það er ljóst þegar gengið er um borgina að mikið er í vændum í kvöld.
Það verður leikið á Bilino Polje leikvanginum í kvöld. Stemning og leikdagsandi var farinn að myndast þar strax í morgun þegar undirritaður mætti á svæðið.
Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19:45 í kvöld að íslenskum tíma. 433.is mun fylgjast með gangi mála og flytja ykkur fréttir í dag og fram á kvöld.