Kári Árnason, fyrrum landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu telur að mál Alberts Guðmundssonar, sem ekki er með íslenska landsliðinu sem í kvöld leikur sinn fyrsta leik í undankeppni EM, hafi ekki haft áhrif á þá leikmenn sem skipa íslenska landsliðið í yfirstandandi verkefni.
Samband Arnars Þórs Viðarssonar, landsliðsþjálfara Íslands og Alberts Guðmundssonar, leikmanns hefur verið mikið í umræðunni. Arnar hefur verið sakaður um ósannindi varðandi ástæðuna fyrir fjarveru Alberts og var málið rætt í stúdíói hjá Viaplay fyrir leik Íslands og Bosníu & Herzegovinu í kvöld.
Sérfræðingar Viaplay, fyrrum landsliðsmennirnir Kári Árnason og Rúrik Gíslason voru spurðir hvort mál Alberts hefði einhver áhrif á þá sem nú skipa landsliðshóp Íslands.
„Nei ég held ekki,“ svaraði Kári. „Auðvitað eru menn að tala um þetta en þetta hefur ekkert áhrif inn á vellinum. Þetta er kannski bara þreytt umræða fyrir þá sem eru þarna, að það sé verið að fókusa á einhvern sem er ekki þarna á staðnum.
Rúrik tók í sama streng og bætti við að þeir sem fjölmiðlamenn væru kannski að fá of miklar upplýsingar.
„Um það sem er að gerast inn í klefanum og hjá hópnum heldur en eðlilegt er. En við fögnum því að fá fyrirsagnir. Það þarf ekki alltaf allt að koma fram. Eins og manni var kennt að tala sem knattspyrnumaður, segja sem minnst og ekki vera að bjóða upp á fyrirsagnir.“
Það mátti lesa á orðum Kára að hann hefði viljað að málið hefði þróast öðruvísi.
„Það var svo auðvelt að koma í veg fyrir þetta. Arnar átti bara að segja, ég ræð og ég vel liðið, hvern viljið þið tala um, aðra en þá sem eru ekki hérna.“
Leikur Íslands og Bosníu & Herzegovinu hefst klukkan 19:45