Fjölmiðlar í Bosníu & Herzegovinu kalla eftir því, nú þegar aðeins nokkrar klukkustundir eru þar til flautað verði til leiks í landsleik Bosníu og Íslands í undankeppni EM 2024, að leikmaður bosníska landsliðsins, Rade Krunic stígi upp og sýni sitt rétta andlit með landsliðinu.
Heimamenn munu þurfa að takast á við Íslendinga án nokkurra af sínum reynslumestu leikmönnum. Þekkt nöfn á borð við Miralem Pjanic, Sead Kolasinac og Muhamed Besic eru allir fjarverandi en í fjölmiðlum ytra er kallað eftir því að miðjumaðurinn Rade Krunic stígi upp við þessar aðstæður.
„Krunic hefur verið einn af bestu leikmönnum AC Milan undir stjórn Pioli,“ segir í umfjöllun bosníska fjölmiðlsins Sportske.
Krunic á að baki 27 A-landsleiki fyrir Bosníu & Herzegovinu en hefur enn, að sögn Sportske, ekki sýnt sitt rétta andlit með landsliðinu.
„Stuðningsmenn landsliðsins eru enn að bíða eftir því að Krunic spili landsleik sem hægt er að minnast hans fyrir. Leikurinn gegn Íslandi er fullkomið tækifæri fyrir Krunic til að sýna hvað hann getur og hvers vegna hann er svona vel metinn hjá AC Milan.“
Krunic hefur spilað 15 leiki með AC milan í ítölsku úrvalsdeildinni á yfirstandandi tímabili og sjö leiki í Meistaradeild Evrópu.
Leikur Bosníu & Herzegovinu og Íslands hefst klukkan 19:45 og fer fram á Stadion Bilino polje í Zenica. Bein útsending er frá leiknum á streymisveitu Viaplay.