Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Zenica
Íslenska landsliðið mætir Bosníu-Hersegóvínu í fyrsta leik liðanna í undankeppni Evrópumótsins 2024 ytra í kvöld.
Leikið er í borginni Zenica, en mikil eftirvænting er fyrir leiknum hér í Bosníu.
Fjölmiðlar hér eru duglegir að hita upp fyrir leikinn og einn þeirra, Sport1.oslobodjenje.ba, býður upp á beina textalýsingu á leikdegi.
Þar er myndavalið athyglisvert. Búið er að setja saman mynd af Edin Dzeko, stærstu stjörnu Bosníumanna og Eiði Smára Guðjohnsen.
Eiður er vissulega goðsögn á Íslandi en, eins og allir vita, eru þó nokkur ár frá því hann hætti að spila fyrir landsliðið.
Bosníumenn telja þó greinilega að allt snúist enn um Eið Smára í íslenska fótboltanum.
Mynd af þessu er hér að neðan.