Ummæli franska miðjumannsins Adrien Rabiot, leikmanns Juventus um enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool hafa vakið töluverða athygli og velta margir vöngum yfir sér hvort Rabiot sé að bjóða sig fram í möguleg félagsskipti til félagsins í Bítlaborginni.
Samningur Rabiot rennur út eftir yfirstandandi tímabil og viðræður við Juventus um nýjan samning hafa ekki borið árangur til þessa. Því gæti vel farið svo að hann fari á frjálsri sölu frá félaginu að tímabili loknu.
„Ég var alltaf mjög hrifinn af Liverpool vegna þess að ég var aðdáandi Steven Gerrard, hann lét mig dreyma og þess vegna hélt ég með Liverpool,“ sagði Rabiot í samtali við Tuttosport á Ítalíu.
Það er alveg ljóst að Liverpool mun þurfa að styrkja leikmannahóp sinn milli leiktíða og er það mál manna að hjá liðinu þurfi helst að styrkja miðsvæðið. Það er því spurning hvort forráðamenn Liverpool horfi hýrum augum til þess að fá Rabiot til liðs við félagið.
Rabiot hefur verið á mála hjá Juventus síðan árið 2019 en þar áður hafði hann verið á mála hjá félögum á borð við Paris Saint-Germain og Toulouse. Þá á hann að baki 35 A-landsleiki fyrir Frakkland og hefur skorað í þeim 3 mörk.
Adrien Rabiot, potential free agent in June: “I loved Liverpool a lot because I was a bit fan of Steven Gerrard, who made me dream… and so therefore I followed the Reds”, told Tuttosport 🔴🇫🇷 #LFC
“My other idol was Zinedine Zidane”. pic.twitter.com/LTodaRPO6S
— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) March 22, 2023