Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Bosníu:
Tafir urðu á flugi íslenska landsliðsins til Bosníu en liðið hafði æft í Munchen í Þýskalandi síðustu daga. Tafirnar urðu þegar vélin var sett í aukna öryggisathugun í Munchen.
Íslenska liðið er nú komið til Bosníu en liðið kaus að gista í Sarajevó en leikurinn fer fram í Zenica á morgun.
Um klukkutíma akstur er þar á milli en Arnar Þór Viðarsson þjálfari liðsins og Aron Einar Gunnarsson fyrirliði sitja fyrir svörum á vellinum í Zenica í kvöld.
Aron Einar er í leikbanni á morgun en ferðast með liðinu til Bosníu, Aron getur svo spilað gegn Liechtenstein á sunnudag.
Leikurinn á morgun fer fram klukkan 19:45 og verður leikurinn í beinni útsendingu á Viaplay.