Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Zenica
Íslenska karlalandsliðið mætir Bosníu í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2024 á morgun. Arnar Þór Viðarsson og Aron Einar Gunnarsson sátu fyrir svörum á blaðamannafundi í Zenica í kvöld.
Landsliðsfyrirliðinn verður einmitt fjarverandi á morgun vegna leikbanns. Þá er miðvörðurinn ógnarsterki Sverrir Ingi Ingason einnig frá vegna meiðsla.
„Ég held að enginn landsliðsþjálfari hafi farið inn í glugga með alla þá leikmenn sem hann vill hafa. Við bara tökum á því,“ sagði Arnar í kvöld.
„Við erum með rosalega sterkan hóp, góða leikmenn sem nánast allir eru að spila mikið og vel. Það er það sem við höfum verið að horfa í, hverjir eru í sínu besta leikformi.“
Arnar var spurður út í það hvort hópurinn nú væri sá besti í hans tíð með landsliðið.
„Ég get tekið undir það. Það var erfiðast fyrir okkur að velja þennan hóp. Það eru leikmenn ekki í hópnum sem eiga það fyllilega skilið.
Ég er pottþéttur á því að við séum á góðum stað akkúrat núna.“