Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Zenica
Íslenska karlalandsliðið mætir Bosníu í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2024 á morgun. Arnar Þór Viðarsson og Aron Einar Gunnarsson sátu fyrir svörum á blaðamannafundi í Zenica í kvöld.
Landsliðsfyrirliðinn getur ekki verið með gegn Bosníu þar sem hann tekur út leikbann. Hann er þó mættur út með liðinu.
„Ég er að reyna að ímynda mér að ég sé að fara að spila, bara til að fá tilfinninguna. Svo kemur svekkelsið á morgun þegar ljóst er að maður er ekki í hóp,“ segir Aron Einar léttur.
Þrátt fyrir leikbann ferðaðist Aron Einar til Bosníu og ætlar sér svo að vera klár gegn Liechtenstein á sunnudag.
„Ég er kominn í þennan leik til að hjálpa til og undirbúa liðið eins og hægt er. Það er samt svekkjandi að vera ekki með.
Maður tekur bara út sitt leikbann og svo kem ég ferskur í leikinn gegn Liechtenstein.
Auðvitað væri ég til í að vera á vellinum og berjast um þrjú stig.“