Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Zenica
Íslenska karlalandsliðið mætir Bosníu í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2024 á morgun. Arnar Þór Viðarsson sat fyrir svörum á blaðamannafundi í Zenica í kvöld.
Þar var spurt út í pistilinn sem Guðmundur Benediktsson birti á dögunum. Arnar hefur ekki valið son Guðmundar, Albert Guðmundsson, í landsliðshópinn. Það virðist anda köldu þeirra á milli.
„Viðbrögð mín eru ekki mikil. Ég hef ekki haft mikinn tíma til að pæla í svona hlutum. Það er nóg að gera. Við erum að einbeita okkur að leiknum á morgun,“ sagði Arnar um málið í kvöld.
Guðmundur var harðorðaur í pistili sínum og sagði meðal annars. „Eftir símtal þeirra á milli ákveður hann að ráðast á Albert og ekki í fyrsta sinn sem þjálfarinn reynir að gera lítið úr honum eftir að hafa tilkynnt hóp sinn. Ég veit ekki hvaða belgísku þjálfaranámskeið AÞV hefur setið en ég vona að þessi nálgun sé ekki kennd þar né á öðrum námskeiðum,“ skrifaði Gummi.
Arnar Þór segir að allir megi hafa skoðun á sér en hann einbeitir sér að leiknum á morgun.
„Ég hef alltaf sagt það að allir megi og þurfi að hafa sínar skoðanir. Ég geri bara það sem ég get gert og stjórna því sem ég get stjórnað, vinn mína vinnu.“
Meira:
Harðorð yfirlýsing frá Gumma Ben – Sakar Arnar um að ráðast á son sinn og gera lítið úr honum