Svo virðist sem heimatreyju enska úrvalsdeildarfélagsins Arsenal fyrir næsta tímabil hafi verið lekið á vefsíðu Reddit. Það er Adidas sem framleiðir treyjur Arsenal en Daily Mail tekur málið fyrir á vefsíðu sinni í dag.
Umrædd treyja er í hinum hefðbundnu litum sem hafa prýtt heimatreyju Arsenal í gegnum tíðina, rauðum og hvítum en einnig er á umræddri treyju að finna gullitaðar rendur auk þess sem merki Adidas og Emirates, styrktaraðila Arsenal eru gullituð.
Daily Mail hefur tekið saman viðbrögð nokkurra stuðningsmanna Arsenal við treyjunni og eru margir þeirra á því að treyjan líti hræðilega út. Þá eru margir ósáttir við þróunina í nútíma knattspyrnuheiminum þar sem nýjar treyjur eru gefnar út fyrir hvert einasta tímabil frekar en að leyfa þeim að lifa yfir nokkur tímabil.
Hér fyrir neðan má sjá mynd af treyjunni sem sögð er vera treyja Arsenal fyrir næsta tímabil: