Manchester United hefur sent njósnara á leiki enska úrvalsdeildarfélagsins Brighton á yfirstandandi tímabili til þess að fylgjast með leikmanni félagsins, Japananum Kaoru Mitoma sem hefur farið með himinskautum í spræku liði Brighton.
Mitoma hefur reynst andstæðingum Brighton erfiður á tímabilinu. Þessi 25 ára gamli leikmaður gekk til liðs við Brighton árið 2021 frá Kawasaki Frontale fyrir rétt tæpar 3 milljónir punda. Eftir dvöl á láni hjá Union Saint-Gilloise fékk hann traustið í aðalliði Brighton og hefur þar skarað fram úr.
Á vef The Sun er greint frá því að Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United hafi áhuga á að fá leikmanninn í rauða hluta Manchesterborgar. Mitoma hefur spilað 27 leiki með Brighton á tímabilinu í öllum keppnum, skorað 9 mörk og gefið 6 stoðsendingar.
Það er ekki óvenjulegt að félög í ensku úrvalsdeildinni séu með njósnara á leikjum andstæðinga sinna í deildinni en The Sun segir njósnara á vegum Manchester United hafa verið að einbeita sér að Mitoma.
Ljóst er að frammistaða Mitoma á yfirstandandi tímabili hefur varpað á hann kastljósi, spurningin er ekki hvort heldur hvaða félög munu reyna við hann í sumar.