Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands hefur miklar áhyggjur af því hversu fáir leikmenn, sem eru gjaldgengir í enska landsliðið, virðast vera í lykilhlutverkum hjá liðum í ensku úrvalsdeildinni. Southate hefur fundað með nýjum íþróttamálaráðherra Bretlands, Lucy Frazer, um stöðu mála.
Southgate heldur nú inn í undankeppni EM með enska landsliðið og í tilefni þess að landsliðshópur Englands var birtur í síðustu viku sá Southgate þar tækifæri til þess að varpa ljósi á þessa stöðu mála.
Um 28% þeirra leikmanna sem eru í byrjunarliðshlutverki hjá sínum liðum í ensku úrvalsdeildinni eru gjaldgengir í enska landsliðið, hlutfallið stóð í 35% árið 2016 og hafði fyrir það staðið í 38%.
Ástandinu er lýst sem hraðri hrörnun í frétt The Athletic um málið og á blaðamannafundi í síðustu viku sagðist Southgate á endanum kannski þurfa að fara velja leikmenn úr ensku B-deildinni eða öðrum sambærilegum deildum í landsliðið.
Southgate fundaði með nýjum íþróttamálaráðherra Bretlands, Lucy Frazer á dögunum þar sem ástandið var rætt og mögulegar leiðir til bætingar voru viðraðar.
Ein af þeim aðgerðum sem hægt væri að grípa til væri að auka fjölda þeirra leikmanna á mála hjá félögum í ensku úrvalsdeildinni sem teljast sem uppaldir (e. homegrown). Sá fjöldi stendur í átta leikmönnum en árið 2021 voru viðraðar hugmyndir að láta þann fjölda standa í 12.
Hins vegar mætti enska knattspyrnusambandið þar harðri andstöðu frá helstu félögum ensku úrvalsdeildarinnar.
Litið er á stöðuna sem forgangsmál hjá enska knattspyrnusambandinu, þá er þetta málefni sem er ofarlega á borði hjá landsliðsþjálfaranum Southgate.