Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, kom í settið í Íþróttavikuna með Benna Bó sem sýnd er á Hringbraut alla föstudaga. Hann sat þar með Herði Snævari Jónssyni, íþróttafréttastjóra Torgs.
Arnar á glæstan feril að baki í atvinnumennsku og hefur spilað með mörgum sem hafa orðið þjálfarar. Peter Bosz er með Lyon og hefur verið með Dortmund og Ajax og Alfred Schreuder sem var reyndar rekin frá Ajax um daginn, Roberto Mancini landsliðsþjálfara Ítala og landsliðsþjálfari Bosníumanna, Faruk Hadžibegić, spilaði með Arnari í Sochaux í Frakklandi.
Hann er þó ekkert að taka upp símann og hringja í gamla vini.
„Þetta er svo skrýtinn heimur. Maður er svo náinn þegar menn eru saman að keppa um titla og á æfingarsvæðinu. Það er blóð sviti og tár. Það hafa ábyggilega margir sömu sögu að segja og ég er að gera núna. Þegar ferillinn er búinn þá er enginn að hafa samband við neinn. Svo hittist maður aftur eftir 20 ár þá er eins og maður hafi aldrei verið aðskildir. Leikmenn talast lítið við eftir að ferillinn er búinn sem er smá sorglegt.“
Arnar sagðist fylgjast þó vel með sínum fyrri liðum en hann spilaði með Feyenoord, Nurnberg, Sochaux, Bolton, Leicester, Stoke og Dundee í atvinnumennsku. „Þau eru orðin svolítið mörg. Líka með leikmönnum sem eru orðnir þjálfarar. Ég get alveg sagt að ég var 100 prósent á því að Bosz yrði þjálfari. Hann var þannig týpa en Mancini aldrei. Og hann myndi geta sagt það sama um mig.
Hann var algjör fagmaður fram í fingurgóma en hann var rólegur og yfirvegaður og maður sá ekki, því maður var uppfullur af steríótýpu af þjálfurum þegar ég var leikmaður og hann passaði ekkert inn í það. En hans árangur er ótrúlegur.“