Vincent Kompany, stjóri Burnley, hefur sent skilaboð á Pep Guardiola, stjóra Manchester City, fyrir leik liðanna í kvöld.
Kompany er goðsögn Man City og var lengi fyrirliði liðsins og vann einmitt fyrir Guardiola í Manchester.
Guardiola hefur verið duglegur að segja að Kompany ætti að vera næsti stjóri Englandsmeistarana eftir frábæran tíma hjá Burnley sem er á leið í efstu deild á ný.
,,Hann þarf að hætta að segja þetta!“ sagði Kompany fyrir leik liðanna í kvöld.
,,Ég er þjálfari í ensku Championship-deildinni. Ég veit ekki hvað hann vill frá mér! Hann ætti að vera önnur tíu ár hjá Man City fyrst og fremst.“
,,Manchester City er í samkeppni um að vinna Meistaradeildina og við erum í samkeppni um að vinna Championship-deildina svo það er lítið vit í að tala um þetta.“