Landsliðsmaðurinn Sverrir Ingi Ingason var ekki með PAOK um síðustu helgi í grísku úrvalsdeildinni.
Fyrstu leikir Íslands í undankeppni Evrópumótsins 2024 eru framundan og er Sverrir að sjálfsögðu í hópnum.
Strákarnir okkar mæta Bosníu eftir slétta viku og Liechtenstein þremur dögum síðar. Báðir leikir fara fram ytra.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari var spurður út í stöðuna á Sverri í samtali við 433.is.
„Hann var með smá krampa í kálfa. Þeir (PAOK) vildu ekki taka áhættu í leiknum um síðustu helgi. Planið er að hann spili núna um helgina þar sem er mikilvægur leikur hjá þeim,“ sagði Arnar um stöðuna á þessum lykilmanni í hjarta íslensku varnarlínunnar.
„Við fylgjumst vel með því. Þetta er eitthvað sem við tökum dag frá degi með okkar læknateymi.“