Gríðarlegur taprekstur var á knattspyrnudeild Vals á síðasta ári en tapið var í heild rúmar 74 milljónir á síðasta ári. Er þetta ansi mikil breyting á milli ára en rúmlega 51 milljónar króna hagnaður varð á rekstri Vals árið 2021.
Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag.
Í tekjum Vals munar mestu um mikið fall í liðnum aðrar rekstrartekjur. Árið 2021 var sá tekjuliður að gefa Val tæpar 200 milljónir króna í vasann en árið 2022 var sá tekjuliður aðeins rétt rúmar 70 milljónir króna.
Launakostnaður knattspyrnudeildar Vals hækkar gríðarlega mikið á milli ára ef litið er til þess að tekjur deildarinnar drógust saman á milli ára. Rekstrargjöld deildarinnar á síðasta ári voru 394 milljónir, launakostnaður var 306 milljónir eða 77 prósent af öllum útgjöldum deildarinnar.
Hagnaður í Kópavogi:
Hagnaður var á rekstri knattspyrnudeildar Breiðabliks á árinu 2022 og nam hann rúmum 157 milljónum króna. Hagnaðurinn kemur þó til vegna þess að félagið fékk rausnarlega gjöf frá stuðningsmanni félagsins sem féll frá á síðasta ári
Rekstrargjöld Breiðabliks voru 746 milljónir á síðasta ári og eykst kostnaðurinn við deildina um 120 milljónir á milli ára.
Þar munar mestu um gríðarlegan kostnað við leikmenn, þjálfara og yfirstjórn. Breiðablik borgaði í laun og annan kostnað 531 milljón árið. Sá kostnaðarliður hækkar um 110 milljónir á milli ára.