Goðsagnirnar Steven Gerrard og Frank Lampard eru meðal þeirra sem eru á blaði yfir hugsanlega næstu þjálfara enska U-21 árs landsliðsins.
Óvissa er með framtíð Lee Carsley hjá landsliðinu og gæti nýr þjálfari komið inn.
Gerrard og Lampard misstu báðir störf sín fyrr á tímabilinu. Gerrard hjá Aston Villa og Lampard hjá Everton.
Þá er Scott Parker einnig á lista. Hann var rekinn frá Club Brugge á dögunum. Fyrr á leiktíðinni var hann hjá Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni og þar áður hjá Fulham.
Um stórt starf er að ræða og mikið tækifæri. Sem dæmi má nefna að Gareth Southgate, þjálfari enska A-landsliðsins, var þjálfari U-21 árs liðsins áður en hann fékk stóra starfið.