Albert Brynjar Ingason hefur tilkynnt að knattspyrnuskórnir séu komnir upp á hilluna.
Hinn 37 ára gamli Albert var síðast á mála hjá uppeldisfélaginu Fylki en tókst ekki að spila leik með liðinu er það tryggði sér sæti í deild þeirra bestu síðasta sumar.
Einnig hefur Albert leikið með Kórdrengjum, Fjölni, FH, Val og Þór í meistaraflokki.
Albert á að baki 219 leiki í efstu deild og skoraði hann í þeim 70 mörk. Í B-deild skoraði hann 25 mörk í 57 leikjum.
„Er gríðarlega þakklátur fyrir ferilinn og öllum þeim sem ég kynntist í gegnum fótboltann.
Fótboltinn á Íslandi er einstakur að mínu mati, fólkið á bakvið félögin eru í þessu útaf ást fyrir sínum klúbbi og ekkert annað og leggur á sig mikla og óeigingjarna vinnu fyrir sín félög og hef ég í öllum þeim klúbbum sem ég hef spilað fyrir fundið fyrir því og borið mikla virðingu fyrir því og er þakklátur fyrir það hvernig hefur verið komið fram við mig hjá þeim liðum,“ segir meðal annars í tilkynningu Alberts.
Færsla Alberts í heild
Eftir síðasta bakslag er nokkuð ljóst að fótboltinn er búinn.
Er gríðarlega þakklátur fyrir ferilinn og öllum þeim sem ég kynntist í gegnum fótboltann.
Fótboltinn á Íslandi er einstakur að mínu mati, fólkið á bakvið félögin eru í þessu útaf ást fyrir sínum klúbbi og ekkert annað og leggur á sig mikla og óeigingjarna vinnu fyrir sín félög og hef ég í öllum þeim klúbbum sem ég hef spilað fyrir fundið fyrir því og borið mikla virðingu fyrir því og er þakklátur fyrir það hvernig hefur verið komið fram við mig hjá þeim liðum.
Maður hefur upplifað margt á þessum ferli, Evrópukeppnir, Íslandsmeistaratitil, að falla, komast upp nokkrum sinnum.
Í heildina algjör veisla!
Að kveðja mitt fólk í árbænum inn á vellinum með Fylki síðasta sumar hefði verið draumurinn og var ég grátlega nálægt því en í heildina er ég heppinn hvað ég fékk mörg ár í þessari íþrótt sem ég elska svo mikið.
FYLKIR – ÞÓR AK – VALUR – FH – FJÖLNIR – KÓRDRENGIR.
Takk fyrir mig.