Aaron Ramsdale er afar ánægður hjá Arsenal og vill helst aldrei yfirgefa félagið.
Markvörðurinn hefur verið frábær síðan hann kom til Arsenal frá Sheffield United sumarið 2021. Hann var fljótur að skáka Bernd Leno í baráttunni um stöðu aðalmarkvarðar og hefur hann verið það allar götur síðan.
Hinn 24 ára gamli Ramsdale hefur haldið hreinu tólf sinnum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.
„Ég sé mig hjá Arsenal í 10, 12 eða 15 ár. Það er markmiðið. Að vera á toppnum svo lengi,“ segir Ramsdale.
Hann talar afar vel um Mikel Arteta. „Frá fyrsta símtalinu og fyrsta deginum sagði hann mér að vera ég sjálfur, ég þyrfti ekki að fela mig á bak við neina ímynd og ætti ekki að vera feiminn við að tjá mig í búningsklefanum.“
Arsenal er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með fimm stiga forskot á Englandsmeistara Manchester City. Skytturnar freista þess að verða meistarar í fyrsta sinn í nítján ár.
„Vonandi þarf ég aldrei að fara og verð einhvers konar hetja og goðsögn hjá þessu félagi.“