Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolta.net segir frá því í hlaðvarpsþætti miðilsins að líklega verði Albert Guðmundsson ekki í landsliðshópi Arnars Þórs Viðarssonar á morgun.
Koma þessa orð Elvars Geirs fram í hlaðvarpinu í kjölfarið af frétt Fréttablaðsins um að Arnar Þór hefði hringt í Albert Guðmundsson og rætt við hann um mögulega endurkomu.
Síðasta haust hætti Arnar að velja Albert í hóp sinn vegna ósættis þeirra á milli. Þjálfarinn sagði þennan leikmann Genoa á Ítalíu hafa sýnt slæmt hugarfar í verkefnum á undan.
„Það er saga að ganga um það að Albert verði ekki í hópnum þrátt fyrir þetta símtal, að þeir séu ekki á sömu línu Arnar og Albert,“ segir Elvar í Innkastinu á Fótbolta.net..
„Ég veit ekki hvort að Albert hafi afþakkað sætið, þetta fæst staðfest á morgun en þetta eru sögusagnirnar sem við erum að heyra núna.“
Albert hefur átt fínt tímabil með Genoa í ítölsku B-deildinni. Hann hefur skorað níu mörk og lagt upp fimm í 29 leikjum.
Ísland mætir Bosníu þann 23. mars en Liechtenstein þremur dögum síðar í undankeppni Evrópumótsins 2024.
Arnar mun tilkynna hóp sinn á morgun og þá kemur í ljós hvort Albert snúi aftur eður ei.