Arsenal vill framlengja samning Ethan Nwaneri, en hann hefur vakið athygli annara stórliða.
Nwaneri verður ekki 16 ára gamall fyrr en eftir viku en í september varð hann yngsti leikmaðurinn til að spila í ensku úrvalsdeildinni. Þá kom hann inn á í blálokin í 3-0 sigri Arsenal á Brentford.
Bæði Chelsea og Manchester City hafa áhuga á Nwaneri en Arsenal vill fæla félögin frá með því að fá hann til að skrifa undir nýjan samning á Emirates-leikvanginum.
Nwaneri, sem er sóknarsinnaður leikmaður, hefur ekki komið við sögu eftir leikinn við Brentford en á þó framtíðina fyrir sér.
Hann á að baki níu leiki fyrir enska U17 ára liðið og hefur hann skorað þrjú mörk í þeim.