Alejandro Garnacho mun missa af næstu leikjum Manchester United vegna ökklameiðsla. Ekki er ljóst nákvæmlega hversu lengi hann verður frá.
Hinn 18 ára gamli Garnacho hefur stigið upp með liði United á þessari leiktíð en hann meiddist gegn Southampton um helgina eftir tæklingu Kyle Walker-Peters.
Kantmaðurinn mun missa af næstu tveimur leikjum United fram að landsleikjahléi og verður hann hugsanlega lengur frá.
„Því miður get ég ekki hjálpað liðsfélögum mínum í mikilvægum komandi leikjum,“ segir Garnacho, en leikirnir sem um ræðir eru Real Betis í Evrópudeildinni og Fulham í enska bikarnum.
Hann missir einnig af tækifærinu til að spila sína fyrstu leiki með argentíska landsliðinu í komandi glugga.
„Svona er fótboltinn en ég er einbeittur á að snúa til baka. Guð hefur kennt mér að gefast aldrei upp og ég mun sjá til þess að ég komi sterkari til baka.“