Neymar var fyrr í vetur orðaður við Chelsea en samkvæmt Florian Plettenberg á Sky Sports eru ekki miklar líkur á að hann endi þar.
Hinn 31 árs gamli Neymar hefur verið á mála hjá Paris Saint-Germain síðan 2017 og á rúm tvö ár eftir af samningi sínum.
Fyrr í vetur var talið að hann vildi fara frá París en á dögunum var því að vísu haldið fram að hugur hans væri þar áfram.
Neymar hefur einna helst verið orðaður við Chelsea en Plettenberg segir ekki miklar líkur á skiptum Brasilíumannsins á Brúnna.
Hann segir orðrómana aðallega hafa verið byggða á meintu samtali Todd Boehly, eiganda Chelsea og Nasser Al-Khelaifi, forseta PSG.
Neymar hefur ekki staðist væntingar frá því hann kom til PSG frá Barcelona fyrir næstum sex árum síðan.