Gary Lineker hefur tjáð sig í kjölfar þess að ljóst varð að hann mun snúa aftur á sjónvarpsskjái bresku þjóðarinnar um næstu helgi.
Lineker, sem er sjónvarpsmaður á BBC, verður mættur aftur til vinnu á laugardag eftir að hafa verið bannað að starfa um helgina.
BBC ákvað að banna Lineker að vinna um helgina eftir umdeilda færslu hans um stefnu ríkisstjórnar Bretlands í útlendingamálum. Hann stýrir sjónvarpsþættinum vinsæla Match of the Day, þar sem farið er yfir leikina í ensku úrvalsdeildinni.
Samstarfsfólk Lineker á íþróttadeild BBC stóð með honum og dró sig úr umfjöllun helgarinnar. Nú er hins vegar ljóst að hlutirnir fari í eðlilegt horf um næstu helgi.
„Eftir óraunverulaga daga er ég ótrúlega feginn því að við höfum fundið leið til að vinna úr þessu. Ég vil þakka öllum fyrir ótrúlegan stuðning, sérstaklega þeim sem vinna með mér á íþróttadeild BBC fyrir að sýna ótrúlega samstöðu,“ segir Lineker í færslu á Twitter.
„Ég hef fjallað um íþróttir á BBC í næstum þrjá áratugi og er ólýsanlega stoltur af því að vinna á besta og sanngjarnasta miðli í heimi. Ég get ekki beðið eftir að stjórna Match of the Day aftur á laugardag.
Sama hversu erfiðir undanfarnir dagar hafa verið er hins vegar ekki hægt að bera þá saman við að þurfa að flýja heimili þitt vegna stríðs og sækja skjóls í landi sem er langt í burtu. Það er hjartnæmt að sjá samúð margra ykkar með þeim. Við erum áfram þjóð sem er umburðarlynd og býður aðra velkomna.“
After a surreal few days, I’m delighted that we have navigated a way through this. I want to thank you all for the incredible support, particularly my colleagues at BBC Sport, for the remarkable show of solidarity. Football is a team game but their backing was overwhelming. 1/4
— Gary Lineker 💙💛 (@GaryLineker) March 13, 2023