Ítölsku stórveldin AC Milan og Inter hafa bæði áhuga á að krækja í Folarin Balogun frá Arsenal í sumar.
Það er La Gazzetta dello Sport sem greinir frá þessu.
Hinn 21 árs gamli Balogun hefur komið mörgum á óvart á láni hjá Reims í Frakklandi í vetur. Þar hefur hann skorað 16 mörk í 26 leikjum og á stóran þátt í því að liðið hefur ekki tapað leik í frönsku úrvalsdeildinni 19 umferðir í röð.
Liðið situr sem stendur í áttunda sæti eftir að hafa verið á miklu flugi.
Milan og Inter hafa bæði tekið eftir uppgangi Balogun og vilja fá hann í sumar.
Talið er að Arsenal vilji 25 milljónir punda fyrir þjónustu hans.
Ljóst er að samkeppnin verður ansi hörð um fremstu stöðuna hjá Arsenal þrátt fyrir frábært gengi Balogun á leiktíðinni og gæti hann því leitað annað.