Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður á Sýn var gestur í Íþróttavikunni með Benna Bó á Hringbraut á laugardag ásamt Herði Snævar Jónssyni, íþróttastjóra á Torgi.
Rætt var um komandi landsleiki hjá karlalandsliðinu í fótbolta en liðið er að hefja leik í undankeppni Evrópumótsins 2024.
„Nú er komið að því, Arnar Þór Viðarsson er að fara að leggja störf sín í dóm kjósenda. Hann tók við liðinu og það gekk á ýmsu,“ sagði Hörður Snævar en Arnar Þór opinberar hóp sinn í næstu viku.
Arnar hefur á undanförnum árum verið að búa til kjarna sem á að bera liðið uppi á þessu ári.
„Hann hefur fengið tíma til að skapa sitt verk, fyrsti leikur í Bosníu er ekkert eðlilega mikilvægur leikur. Það eru þarna Liechtenstein og Lúxemborg en það verða úrslitin gegn Bosníu og Slóvakíu sem munu telja hvort liðið nái öðru sætinu í riðlinum, sem er farmiðinn á Evrópumótið í Þýskalandi.“
Alfreð Finnbogason er að finna markaskóna og Hörður fagnar endurkomu hans. „Það vantar markaskorara í þetta lið, svo er bara að allir haldist heilir áður en hópurinn kemur saman í Bosníu.“
Umræðan er í heild hér að neðan.