Mykhailo Mudryk hefur ekki upplifað sjö dagana sæla á Englandi síðan hann kom til Chelsea í janúar.
Mudryk kom sterkur inná í sínum fyrsta leik gegn Liverpool en síðan þá hefur leiðin legið niður á við.
Úkraínumaðurinn kostaði háa upphæð frá Shakhtar Donetsk en Chelsea hafði betur gegn Arsenal í baráttunni.
Vængmaðurinn er þessa stundina varamaður og fær lítið að spila sem hefur vakið töluverða athygli.
Fyrrum leikmaður Chelsea, William Gallas, er undrandi en hann reyndi að útskýra stöðu leikmannsins.
,,Mudryk byrjar ekki, af hverju er það? Kannski er strákurinn ekki tilbúinn eða þá að leikkerfið hentar honum ekki og að hann vill fá að spila í öðru hlutverki,“ sagði Gallas.
,,Ég veit það í raun ekki. Þess vegna benti ég á að eigendurnir væru að eyða peningum því þeir eru til og þeir vita ekki hvernig á að fylla í hópinn. Eins og er þá vei ég ekki hvað hefur gerst við Mudryk.“