Guðjón Guðmundsson mætti í settið í Íþróttavikunni sem sýnd er á Hringbraut öll föstudagskvöld. Gaupi, eins og hann er ávalt kallaður, fór þar yfir sviðið en hann hefur verið íþróttafréttamaður síðan 1991.
„Ég byrjaði að lýsa leikjum á Bylgjunni. Ingvi Hrafn hafði samband við mig og vantaði mann í afleysingar og ég dreif mig upp á stöð til að hitta kallinn. Ég gleymi því aldrei því þegar ég mætti var Ingvi í stuttermabuxum og stuttermabol að reykja Camel og spurði hvort ég vildi ekki bara detta inn í þetta. Sagðist ætla að gefa mér tvær vikur.
Ég svaraði ekkert mál en ég fékk engar tvær vikur því ég byrjaði bara eftir hádegi að vinna.“
Benedikt Bóas, þáttastjórnandi spurði þá hvort hann sé farinn að spá í að segja þetta gott? „Það styttist. Þetta er orðin góður tími. Í þessu starfi er þetta ekki vinna – heldur lífstíll.“