Morten Beck Guldsmed ætlar að draga FH fyrir dómstóla þar sem hann telur félagið skulda sér 14 milljónir króna í laun. Hjörvar Hafliðason segir frá þessu í Dr. Football.
Hinn 35 ára gamli Morten Beck var á mála hjá FH frá 2019 til 2021. Hann hefur einnig leikið með KR og ÍA hér á landi.
„Hann er farinn með FH-inga í dómsalinn, hann vill meina að FH skuldi sér fyrir meira en tvö tímabil, 14 milljónir. FH viðurkenna skuldina en ekki allan þennan pening. Af gögnum málsins að dæma hefur hann rétt fyrir sér og líklegt að FH-ingar þurfi að borga þetta í topp,“ segir Hjörvar í hlaðvarpi sínu.
Samkvæmt þættinum borgaði FH danska framherjanum eins og hann væri verktaki en hann taldi sig vera launmann.
„Lögmaður hans fer einnig fram á að FH fái hámarkssekt, 2 milljónir, plús tveggja ára félagaskiptabann.
Þetta er skítamál fyrir Hafnfirðinga,“ segir Hjörvar, en búast má við viðbrögðum frá FH á næstunni.