Hasan Salihamidžić, yfirmaður íþróttamála hjá Bayern Munchen, segir að Joao Cancelo sé hluti af framtíð félagsins þrátt fyrir fréttirnar undanfarið.
Cancelo gekk í raðir Bayern á láni frá Manchester City í janúar eftir ósætti við Pep Guardiola.
Bayern hefur svo möguleika á að kaupa portúgalska bakvörðinn á 70 milljónir evra í sumar.
Undanfarið hefur Cancelo þó ekki átt sæti í byrjunarliðinu þar sem leikkerfinu var breytt.
Fréttir hafa verið um að kappinn sé ósáttur og að ekki sé víst að hann verði keyptur til Bayern í sumar.
„Joao verður mjög mikilvægur fyrir okkur. Hann hefur ekki verið að æfa og spila eins og hann hefði viljað undanfarið. Við eigum samt í góðum samskiptum við hann,“ segir Salihamidžić.
„Hann er stórkostlegur leikmaður og verður mikilvægur fyrir okkur.“