Bukayo Saka, stjörnuleikmaður Arsenal, hefur skýrt frá því hver heillaði hann mest þegar hann var að stíga sín fyrstu skref með aðalliðinu.
Hinn 21 árs gamli Saka spilaði sinn fyrsta leik fyrir Arsenal árið 2018, þá 17 ára gamall. Síðan hefur ansi mikil framþróun átt sér stað.
Saka er einn allra besti leikmaður Arsenal, sem er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með fimm stiga forskot.
„Ég held að ég myndi segja Mesut Özil. Hann spilar í sínum eigin heimi. Stundum gerði hann eitthvað og maður horfði bara og hugsaði: Vá,“ segir Saka, spurður út í hver það var sem heillaði hann mest þegar hann var að stíga sín fyrstu skref með aðalliði Arsenal.
Özil gekk í raðir Arsenal árið 2013 frá Real Madrid. Hann var stórskostlegur framan af en var hins vegar kominn algjörlega út í kuldann í upphafi stjórnartíðar Mikel Arteta.
Þjóðverjinn yfirgaf Arsenal í janúar 2021.