Gabriel Jesus gæti óvænt ferðast með Arsenal til Portúgal fyrir leikinn gegn Sporting í Evrópudeildinni á fimmtudag.
Liðin mætast í fyrri leik 16-liða úrslita keppninnar. Síðari leikurinn fer fram í London viku síðar.
Jesus hefur verið meiddur síðan á Heimsmeistaramótinu í Katar fyrir áramót. Hann meiddist á hné í leik með Brasilíu og þurfti að fara í aðgerð.
Mikel Arteta sagði í síðustu viku að Jesus færðist nær því að snúa aftur og það virðist ætla gerast fljótlega.
Það eru þó afar litlar líkur á að sóknarmaðurinn spili leikinn við Sporting. Ferðalag hans með liðinu yrði aðeins hluti af því að koma honum inn í hlutina á ný.
Talið er líklegt að Jesus snúi aftur í byrjun apríl gegn Leeds eftir landsleikjahlé.