Reiss Nelson hefur verið í umræðunni síðan á laugardag, en þá skoraði hann afar dramatískt sigurmark á lokaandartökum leiks Arsenal gegn Bournemouth og sá til þess að toppliðið hélt fimm stiga forskoti á Manchester City.
Kappinn verður samningslaus í sumar og getur því farið frítt í önnur lið þá.
CBS Sports segir nú frá því að Nice hafi áhuga á að fá leikmanninn til sín.
Nice er þekkt fyrir að fá til sín fyrrum leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni. Má þar nefna menn á borð við Ross Barkley, Aaron Ramsey, Kasper Schmeichel og Nicolas Pepe sem dæmi.
Þrátt fyrir að hafa komið við sögu á laugardag hefur Nelson ekki átt fast sæti í liði Arsenal og ljóst að Nice gæti boðið honum meiri spiltíma.
Hins vegar sagði Fabrizio Romano frá því nýlega að Nelson vildi ólmur skrifa undir nýjan samning við Arsenal.