Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United var mættur snemma til vinnu á æfingasvæði félagsins í morgun, degi eftir að lið hans beið afhroð gegn erkifjendunum í Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Liverpool niðurlægði Manchester United í gær með sjö mörkum gegn engu og það virtist því ansi táknrænt að klukkan sjö í morgun var Ten Hag mættur til starfa á æfingasvæði Manchester United, Carrington.
Tveimur tímum síðar, klukkan níu, mátti sjá leikmenn mæta á svæðið en það er Manchester Evening News sem greinir frá.
Heimildarmenn blaðsins tengdir Manchester United segja að fyrir leikinn gegn Liverpool hafi það verið ákveðið að leikmenn myndu mæta til léttra æfinga á æfingasvæðinu á þessum tíma.
Í viðtali eftir leik gærdagsins lét Ten Hag hafa það eftir sér að liðið megi ekki tapa leikjum á þennan hátt, hann sá ellefu einstaklinga inn á vellinum, ekki eitt lið.
„Það getur komið fyrir að leikir tapast en það má ekki gerast á þennan hátt. Þá er seinni hálfleikurinn hjá okkur óásættanlegur, þetta er ekki Manchester United.
Þetta má ekki gerast og við þurfum að eiga samtal um þetta. Ég sá ellefu einstaklinga inn á vellinum missa hausinn. Þetta var ekki Manchester United.“